Naustagata 13 – Seinni tillaga

Heilsugæsla Hagahverfi

Hugmynd okkar gengur út á að byggja verslunar- og þjónustukjarna í hjarta nýju byggðahluta Akureyrarbæjar, Naustahverfis og Hagahverfis. Í þeim hverfum hefur mikil og öflug uppbygging átt sér stað undanfarin ár en nærþjónusta hefur ekki fylgt þeirri uppbyggingu þannig að mikil vöntun er á verslunar- og þjónusturými í þessum bæjarhluta.

Akureyrarbær og Heilbrigðisráðuneytið hefur einnig leitað að lausnum fyrir nýja heilsugæslustöð og með þessari tillögu yrði Heilsugæslan Hagahverfi í göngufæri við um 4.000 manna bæjarhluta, og í nokkurra mínútna akstursfjarlægð bæði frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og Hjúkrunarheimili Heilsuverndar.

Tillaga þessi gerir ráð fyrir að nýta landhalla lóðarinnar frá vestri til austurs til þess að byggja rúmlega 2000m² verslunar og þjónustuhæð, sem vegna landhallans verður frágrafin að fullu á austurhliðinni og að verulegu leyti á bæði norður og suðurhlið.
Ofan á þessa jarðhæð komi síðan tvær hæðir um 950m² að stærð þar sem yrði heilsugæslustarfsemi á tveimur hæðum. Innangengt yrði á norð-vesturhlið inn á 1. hæð heilsugæslunnar. Við bygginguna er einnig gert ráð fyrir yfir 100 bílastæðum.

Staðsetning kjarnans er mjög hentug með tilliti til samgangna en tengibrautir liggja á tvo vegu frá Kjarnanum, Kjarnagata til suðurs og Naustagata til austurs.

Kollgáta hannaði húsin.

Nánar um tillöguna (pdf)

< Skoða fyrri tillögu fyrir Naustagötu 13

Sjá drög að breytingum á aðal- og deiliskipulagi Akureyrarbæjar fyrir svæðið

HORFT TIL SUÐURS
Hér er horft suðurs frá hringtorgi við Kjarnagötu. Þarna sést innkeyrsla lóðarinnar og aðkoma að 2.hæð hússins sem snýr til vesturs. Fjölbýlishús við Davíðshaga í baksýn.

EFNISVAL OG UMHVERFI
Byggingin yrði með steinsteyptu yfirbragði á jarðhæð en efri hæðir yrðu glerhjúpur í álkerfi til að hámarka birtu inni í rýmum á 2.- og 3. hæð.
Húsið yrði með ásýnd þriggja hæða húss til austurs og að hluta til á norður og suðurhliðum en að vestanverðu er ásýndin aðeins tvær hæðir.
Mikil áhersla yrði lögð á gras, tré, og runnagróður í frágangi lóðarinnar þannig að þessi miðpunktur svæðisins verði fljótt gróinn og aðlaðandi fyrir gesti og gangandi.

Grunnflatarmál byggingarreits: 2100,0 m2
Fjöldi bílastæða í tillögunni: 104
Heildar byggingarmagn lóðar: 4750,0 m2
Heildar byggingarmagn tillögunnar: 4.000 m2

Jarðhæð/Kjallari:
Verslunarrými: 2.100 m2

1. hæð:
Heilsugæslustöð: 950 m2

2. hæð
Heilsugæslustöð: 950 m2

Miðsvæðis í nýjum bæjarhluta

Um er að ræða reit sem stendur efst við Naustabraut, miðja vegu milli Naustahverfis og Hagahverfis á Akureyri. Lóðin stendur við hringtorg sem tengir saman Kjarnagötu og Naustagötu, sem eru helstu samgönguæðar u.þ.b. 4.000 manna byggðar syðst í bænum.

Aðeins eru um 1000m frá nyrstu byggð Naustahverfis að lóðinni, eða u.þ.b. 10 mínútna gangur. Þá er um 600m gangur að suðurmörkum Hagahverfis eins og það stendur í dag, en framtíðaruppbygging gerir ráð fyrir að Hagahverfi stækki til suðurs á næstu 10-15 árum.

Vestan við Kjarnagötu gerir Akureyrarbær síðan ráð fyrir að skipuleggja Lífsgæðakjarna sem gæti byggst upp á næstu 5-10 árum skv. yfirlýsingum starfshóps um málið.

Öruggar gönguleiðir ásamt fjölda bílastæða gera svæðið mjög aðgengilegt fyrir alla samgöngumáta.